Mary Shelley
Mary Wollstonecraft Shelley var enskur rithöfundur, þekktust fyrir skáldsöguna Frankenstein, or the Modern Prometheus (1818).
Móðir hennar, femínistinn Mary Wollstonecraft, lést þegar Mary var tæplega mánaðar gömul og eftir það ólst hún upp hjá föður sínum, pólitíska heimspekingnum William Godwin. Þar hlaut hún óformlega en víðtæka menntun. Þegar Mary var fjögurra ára kvæntist faðir hennar aftur og hefur því verið haldið fram að samband Mary og stjúpmóður hennar hafi verið stirt.
Árið 1814 hóf Mary ástarsamband með skáldinu Percy Bysshe Shelley. Þau ferðuðust saman um Evrópu ásamt Claire Clairmont, stjúpsystur Mary. Þegar þau komu aftur til Englands var Mary barnshafandi, en dóttir þeirra fæddist fyrir tímann og lést fljótlega. Næstu tvö árin bjuggu þau Mary og Percy við útskúfun og fátækt. Þau gengu loks í hjónaband síðla árs 1816, eftir sjálfsvíg fyrri eiginkonu Percys, Harriet.
Sumarið 1816 dvöldu þau Mary og Percy nálægt Genf í Sviss ásamt Claire Clairmont, Lord Byron og John William Polidori. Þar kviknaði hugmyndin að skáldsögunni Frankenstein.
Þau hjónin héldu til Ítalíu árið 1818 og eignuðust þar þrjú börn í viðbót, en aðeins einn sonur, Percy Florence Shelley, lifði.
Árið 1822 drukknaði Percy Shelley þegar bátur hans sökk í óveðri nálægt Viareggio. Ári síðar sneri Mary aftur til Englands ásamt syni sínum og einbeitti sér að uppeldi hans og rithöfundarferli sínum.
Síðasta áratug ævi sinnar þjáðist Mary af veikindum sem líklega áttu rætur að rekja til heilaæxlisins sem svo varð henni að aldurtila. Hún lést árið 1851, 53 ára að aldri.
Skáldsagan Frankenstein naut strax mikilla vinsælda og gerir enn í dag. En upp úr 1970 fóru fræðimenn að veita öðrum verkum Mary Shelley meiri athygli en áður. Þar á meðal eru sögulegu skáldsögurnar Valperga (1823) og Perkin Warbeck (1830), heimsendaskáldsagan The Last Man (1826) og síðustu tvær skáldsögur hennar, Lodore (1835) og Falkner (1837).
Rannsóknir á minna þekktum verkum Mary, svo sem ferðasögunni Rambles in Germany and Italy (1844), benda til þess að Mary hafi alla ævi haft róttækar stjórnmálaskoðanir. Víða í verkum hennar birtist sú skoðun að samvinna og samkennd, sér í lagi af hálfu kvenna, væru leiðin til þess að koma fram umbótum í samfélaginu. Þetta sjónarmið var andstætt einstaklingshyggju rómantísku stefnunnar sem Percy Shelley studdi, og eins hinni pólitísku upplýsingarstefnu sem faðir hennar, William Godwin, aðhylltist.